Súrdeigsskinkuhorn

Þessi skinkuhorn eru sjúklega bragðgóð, mjúk og loftkennd. Þau eru best þegar þau eru nýlega komin úr ofninum, sem sannast líklega best á því að þau kláruðust á innan við klukkutíma. Maður finnur aðeins örlítinn keim af súrdeiginu þannig að það er alls ekki yfirgnæfandi.

Við fengum súr lánaðan frá bróður okkar en hann er gerður úr vínberjum. Hann hefur alltaf virkað vel í þeim uppskriftum sem við höfum notað hann í. En við mælum með að nota súr sem hefur nýlega verið fóðraður því þannig virkar hann best. Við fóðruðum okkar 2 tímum áður.

Við höfum aldrei áður prófað að búa til skinkuhorn úr súrdeigi. Því bættum við smá þurrgeri og eggi við uppskriftina til þess að flýta fyrir hefuninni á deiginu og til að tryggja að hornin myndu lyfta sér og ekki verða flöt.

UPPSKRIFT

Þessi uppskrift dugði í 24 lítil horn.

Hráefni

 • 2 1/2 tsk. þurrger

 • 1 msk. sykur

 • 152 gr. volgt vatn

 • 120 gr. af nýlega fóðruðum súr

 • 400 gr. hveiti

 • 1 1/2 tsk. salt

 • 1 egg

 • 70 gr. smjör við stofuhita

 • 1 dolla af smurosti að eigin vali

Aðferð

 • Setjið volgt vatn í skál og stráið þurrgeri og sykri yfir. Hrærið örlítið og leyfið að standa í 5 mínútur.
 • Bætið við súrnum, egginu og smjörinu og hrærið saman.
 • Blandið saman hveitinu og saltinu og bætið við.
 • Hnoðið deigið saman í hrærivél eða með höndunum. Ef deigið er of blautt bætið þá örlitlu af hveiti við þar til það er orðið slétt og fínt.
 • Látið deigið hefast í 60 mínútur. Gott ráð er að fylla eldfast mót af sjóðandi heitu vatni og setja neðst í ofnskúffuna. Setjið svo skálina með deiginu á rekka yfir og lokið ofnhurðinni. Rakinn og hitinn munu skapa fullkomnar aðstæður fyrir deigið til að hefast í.
 • Þegar 60 mínútur eru liðnar og deigið búið að stækka um að minnsta kosti helming má skipta því niður í 3-4 kúlur (fer eftir því hversu stór skinkuhornin eiga að vera).
 • Fletjið kúlurnar í hring með kökukefli. Berið smurost á og skerið í 8 þríhyrninga. Rúllið svo deiginu upp frá breiðari endanum til að loka hornunum.
 • Leggið hornin ofan á bökunarplötu með bökunarpappír. Leggið viskastykki yfir eða plastpoka og leyfið hornunum að hefast í a.m.k 60 mínútur.
 • Penslið egg á hornin og stráið sesamfræjum yfir.
 • Bakið svo hornin við 180°C í 20-25 mínútur.