Ef það er eitt sem við systur eigum sameiginlegt þá er það ást okkar á lakkrís. Þess vegna þótti okkur algjör furða að við hefðum aldrei bakað alvöru lakkrísköku áður. Eftir nokkrar tilraunir teljum við að okkur hafi tekist að ná fram hinni fullkomnu lakkrísköku sem allir lakkrísunnendur hafa eflaust beðið lengi eftir.

Við getum því miður ekki tekið allan heiðurinn fyrir uppskriftina þar sem hún er innblásin af þessari uppskrift hér.

Okkur leist fyrst ekki vel á að hafa hvítt súkkulaðikrem þar sem okkur finnst það báðum frekar væmið en það passar alveg lygilega vel með lakkrísnum.

Til þess að toppa kökuna skreyttum við hana með páskakúlunum frá Johan Búlow sem kom virkilega vel út. Þær fást hér í Epal.
BOTNINN
- 200 gr sykur
- 75 gr smjör við stofuhita
- 1 egg
- 300 gr Ab-mjólk
- 2 tsk vanilludropar
- 200 gr af hveiti
- 1 tsk matarsódi
- 2 msk af RAW lakkrís duftinu frá Johan Búlow (fæst hér)*
KREMIÐ
- 200 gr hvítt súkkulaði
- 1 dl rjómi
AÐFERÐ VIÐ BOTNINn
- Hitið ofnin við 160 gráður
- Þeytið saman sykur, egg og smjör þar til það verður létt og hvítt á litinn
- Bætið við Ab-mjólk og vanilludropunum ásamt lakkrísduftinu. ATH áður en þið setjið lakkrísduftið út í er best að reyna myrja það örlítið niður í aðeins fínna púður, það er hægt að gera þetta með bakhliðinni á skeið eða með morteli
- Bætið öllum þurrefnunum saman við og hrærið
- Færið degið yfir í eldfast mót (við notuðum 25 cm) og setjið í ofninn í 40-55 mínútur

AÐFERÐ VIÐ KREMIÐ
- Brjótið hvíta súkkulaðið niður í bita ofan í skál og hellið 1 dl af rjóma yfir
- Setjið skálina í örbylgjuofnin í 20 sek, takið skálina út og hrærið mjög vel. Endurtakið þetta þar til súkkulaðið hefur bráðnað en passið að súkkulaðið hitni ekki of mikið
- Setjið lok eða plast yfir skálina og leyfið súkkulaðinu að kólna í a.m.k klukkutíma
- Eftir að súkkulaðið hefur kólnað má þeyta það. Þeytið þar til það verður hvítt á lit og loftþétt. Eftir það má smyrja því á kökuna og njóta!

Þær vörur sem eru stjörnumerktar voru fengnar að gjöf