Kartöflur, hver elskar ekki kartöflur? Eflaust ekki allir en ef þú ert einn af þeim sem elskar kartöflur skaltu halda áfram að lesa.

Þessar kartöflur eru frábærar sem meðlæti með kvöldmatnum, hádegismatnum eða jafnvel morgunmatnum. Þær eru stökkar að utan og dúnmjúkar að innan.

Hafið í huga að kartöflurnar minnka ansi mikið inni í ofninum og því er gott að gera meira heldur en minna. Við notuðum 1 kg af kartöflum fyrir 4 fullorðna en við hefðum mátt útbúa meira magn.
Uppskrift
Fyrir áhugasama þá höfum við sýnt aðferðina á Instagramminu okkar hér .
Hráefni
1 kíló af kartöflum
2 msk .salt
1 tsk matarsódi
5 msk. af olíu
4 hvítlauksgeirar
1-2 tsk. af steinselju
Aðferð
- Stillið ofninn á 230°C.
- Afhýðið kartöflurnar og skerið þær í frekar stóra teninga.
- Hitið vatn í potti og bætið við 2 msk. af salti og 1 tsk. af matarsóda. Þegar vatnið er byrjað að sjóða má setja kartöflurnar út í.
- Hitið á pönnu 5 msk. af olíu ásamt 4 pressuðum hvítlauksgeirum og 1 tsk. af steinselju. Steikið hvítlaukinn á pönnunni þar til hann verður gylltur á lit.
- Sigtið olíuna frá hvítlauknum og steinseljunni og leggið til hliðar.
- Sigtið vatnið frá kartöflunum þegar þær eru orðnar linsoðnar og hellið olíunni ofan í pottinn. Setjið lokið á og hristið pottinn hressilega þar til að þykkt lag af mjúkri húð myndast á yfirborði kartaflanna.
- Færið kartöflurnar yfir á bökunarplötu og aðskiljið þær. Setjið þær í ofninn og hreyfið ekki við þeim í allavega 20 mínútur.
- Eftir að 20 mínútur hafa liðið má fara með spaða og hræra aðeins til í kartöflunum svo þær eldist jafnt. Kartöflurnar ættu svo að vera tilbúnar eftir um 50-60 mínútur í ofni.
- Takið kartöflunar út og setjið þær í skál ásamt hvítlauknum og steinseljunni sem við sigtuðum frá áðan og berið þær fram.